thjodmal-domsmal

Dómsmál
Þegar kennarinn tilkynnti einn morguninn að afbrot hefði verið framið,
þá sögðu börnin einum rómi:, við viljum ekki glæpi á landinu okkar.
Það skil ég vel sagði kennarinn en hvernig stendur á því að Íslendingar og aðrar þjóðir vilja hafa glæpi ?
Þau vilja ekkert hafa þá, þeir bara gerast. Þá gæti það sama gerst hjá ykkur sagði kennarinn. Hvað er til ráða ?

Viðfangsefni
Glæpir og refsing.
Eins og gefur að skilja stinga börnin ekki upp á því að glæpur verði framinn, svo til þess að koma umræðu um dómsmál að verður kennarinn (örlaganornin) að láta þetta gerast. Rétt er að geta þess hér að staða barnanna er í umræðunum er sú að vera þingmenn þar sem allir hafa jafnan atkvæðisrétt og lenda þar með aldrei persónulega í hlutverkum, hvorki t.d. þjóðhöfðingja né afbrotamanns.

Umræðuefni
Til þess að börnin finni þörfina fyrir lög, þarf eitthvað að koma fyrir á landinu, sem vekur þau til umhugsunar um slík mál. Ég hef venjulega látið fremja sauðaþjófnað. Það er ótrúlegt áfall fyrir börnin, að heyra það tikynnt að framið hafi verið afbrot í landinu þeirra. Flest bregðast þau þannig við, að þau segjast ekki vilja þetta, þau ætli ekki að hafa glæpi á sínu landi. Það gefur ágætt tilefni til að ræða eftirfarandi:
Hafa þjóðir heims, sem stríða við afbrotamenn óskað sér slíks ?
Hvers vegna gerist þetta samt ? Hvað er til ráða ?
Hvað er að gerast í slíkum málum hérlendis ?
Hvað kemur fólki til að fremja ódæði ?

Hafa ekki allir menn fæðst sem saklaus börn ?

Er hægt að fyrirbyggja glæpi ? Geta lög hjálpað ?
Er mannbætandi að vera í fangelsi?

Síðan má ræða um auðgunarafbrot, afbrot vegna geðveilu, minnimáttarkenndar, siðleysis o.s.frv. Gæti fyrirmyndin verið komin frá fjölmiðlum ? Umræður um hættuna sem fylgir því að horfa gagnrýnilaust á sjónvarp o. s. frv.

 

Orðakistill
Afbrot, glæpur, refsing, málaferli, lög, reglur, sakaskrá, sakborningur, ákærandi, ákærði, verjandi, dómur, dómari, lögmenn, síbrot, afplánun, fjársekt, réttindamissir, fangelsun, skilorð, dauðadómur.

 

Vinnubók
Teiknað frjálst um efnið og orðalisti
Sýnishorn

skemmdarvargar mynd-1.gif (46105 bytes)

Það hefur síendurtekið sig í öllum löndunum að sama hvað sökin var lítil þá átti undir eins að setja hann í fangelsi. Þá hófst umræðan um hvort sömu viðurlög ættu að vera sama hve brotið væri stórt, síbrotamaður eða fyrsta brot. Stundum kenndu þau svo í brjósti um afbrotamanninn t.d. sauðaþjóf sem ætti svöng börn heima og mundi aldrei gera þetta aftur og vildu helst sleppa honum við refsingu. En við nánari athugun sáu þau að það gæti orðið fordæmisgefandi.

Menntamál Heilbrigðismál Stjórnarfar Fjármál Dómsmál