Herdís er fædd á Húsavík 18. júlí 1934. Hún lauk stúdentsprófi frá MA og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1953. Síðan þá hefur hún kennt fimm til átta ára börnum við Skóla Ísaks Jónssonar, en 1998 hætti hún kennslu til þess að hafa tíma til að sinna því að breiða út kennsluaðferð sína, Landnámsaðferðina.

herdis.jpg (15377 bytes)
Herdís Egilsdóttir

Bækur
Kisuland
Stafa og vísnakver
Nýtt land  - Ný þjóð
Sigga og skessan 10 bækur
Draugurinn Drilli
Gegnum holt og hæðir
Vatnsberarnir
Eyrun á veggjunum
Rympa á ruslahaugnum
Pappírs-Pési
Við bíðum eftir jólum
Þótt desember sé dimmur
Veislan í barnavagninum

Bangsi læknir
Spékoppar

 

Um hvað fjallar Landnámsaðferðin?
Höfuðviðfangsefni þessarar aðferðarer líf nútímafólks á landi þar sem allt vantar nema gjafir náttúrunnar. Hvernig þjóðin kemur sér upp mannsæmandi lífsskilyrðum, hvað það kostar hana, hvernig hún velur og hafnar eftir aðstæðum og efnahag. Hvernig hún bregst við óæskilegum áhrifum og freistingum og hvaða gildi hún hefur í hávegum.

Hvatinn:
Börn geta allt og vilja taka þátt í öllu sem er skemmtilegt. Þau þola og ráða við miklu meira en við höldum. Sveltum þau ekki!

Hlutverk kennara og barna?
Í öllum umræðum eru börnin í hlutverki þingmanna og hafa jafnan atkvæðisrétt, en kosið er um stór mál. Hlutverk kennarans er að vera verkstjóri, fundarstjóri og "örlaganorn".Örlög ráða t.d. legu og lögun landsins og því sem komið getur  fyrir en börnin kalla ekki yfir sig sjálf t.d. afbrot o.fl.

 

Hvers vegna svo fullorðinslegt efni?
Börn hafa frá örófi alda valið að leika sig fullorðin. Ég álít að allt nám ætti því að byrja með leik. Það er hollt fyrir börnin að kynnast málefnum fullorðinna og ræða þau á máli fullorðinna. Þannig búum við börnin best undir lífið og gerum þau lífsleikin.Þau eru stolt af að fást  við verkefni fullorðinna en við megum aldrei gleyma því að þau eru börn.

Geta öll börn lært eftir þessari aðferð?
Börn eru misjafnlega þroskuð og hæfileikarík en sé þess gætt að spyrja börnin aldrei útúr þ.e.a.s. láta engan gata, geta allir gengið óhikað og óhræddir til leiks. Það  hefur ítrekað reynst svo að börn sem ekki hafa virst miklir námsmenn hafa fundið bestu ráðin til að lifa af.

Hve lengi ?
Ég hef notað aðferðina í 2 og 3 bekk en hefði haldið áfram, en Skóli Ísaks Jónssonar sem ég kenndi alltaf við er aðeins fyrir yngri börnin. Ég hef vitað af að aðferðin hefur verið notuð með skemmtilegri útfærslu fyrir allt uppí 15 ára unglinga.


 

Markmið:
að opna augu barnanna fyrir lífinu í kringum sig og lífsbaráttunni
að efla sjálfstæða hugsun
að auka orðaforða barnanna
að æfa börnin í að tjá sig munnlega, skriflega, verklega og listrænt
að auka þekkingu og hvetja til fróðleiksleitar
að undirbúa nám í sem flestum greinum
að skapa tengsl við heimilin og auka þátttöku þeirra í uppfræðslunni
að reyna að finna og efla hæfileika einstakra nemenda, þótt þeir liggi utan ramma kennslugreina skólans
að skapa virðingu og samstöðu um framlag til að efla velferð lands og þjóðar

Sáning og uppskera?

Sáum lífsleikni í orðsins dýpsta skilningi.
Uppskeran er ekki fólgin í að kunna allt heldur kannast við, kunna að leita upplýsinga og hafa sjálfstraust til að takast óhikað á við ögrun náms og lífs.


Það sem sáð var í gær ber ef til vill ekki ávöxt í dag en við getum treyst því að það geri það á morgun.

Samsetning þjóðarinnar:
Í landnáminu eru börnin fullorðið nútímafólk með börn og gamalmenni á sínum vegum. Mannfjöldinn er ótilgreindur vegna þess að
börnin í bekknum mega aldrei fá mismunandi stöðu í þjóðfélaginu, t.d. hvorki vera forseti né afbrotamaður.

 

Ég hóf að kenna eftir Landnámsaðferð minni árið 1976. Tólf lönd og þjóðir hafa litið dagsins ljós síðan. Hjá mér varð þetta tveggja ára nám, í sjö og átta ára bekkjum. Ástæðan fyrir því að ég vann ekki lengur með hverjum bekk er sú að Skóli Ísaks Jónssonar sem ég hef starfað við frá árinu 1953 er eingöngu ætlaður 5 - 8 ára börnum. Aðferðin hentar einnig vel eldri börnum og dæmi eru um t.d. frá Danmörku að 14 ára nemendur hafi enn verið að vinna eftir þessari aðferð með góðum árangri. Aðferðin samþættir öll námsfög og þróar samfélagsvitund nemenda. Þessi aðferð gefur afar marga og skemmtilega möguleika til að nálgast og vinna með námsefnið Lífsleikni hvort sem aðferðin er notuð í heild sinni eða að hluta.

Til þess að fæla ekki yngstu börnin frá því að tjá sig skriflega leiðrétti ég hvorki setningaskipan né stafsetningarvillur í texta þeirra og ljóðum. Stafsetningu kenni ég í öðru og hefðbundnara samhengi.

Þess vegna er texti barnanna einnig látinn halda sér óbreyttur á vefnum.

Hve oft ?
Ég byrjaði hvern dag á lestri, skrift, stafsetningu og stærðfræði.
Daglega nýtti ég svo allt að helmingi kennslutímans í landnámið sjálft á einhvern hátt.
Öll kjarnafögin runnu eðlilega saman við landnámsaðferðina í reynd.

 

Hugmyndin er að skrá allar þær þjóðir sem eru í  gangi. Ef 5. bekkur á Hvammstanga notar landnámsaðferðina í námi og langar að komast í samband við landnema "í öðru landi" (hérlendis eða erlendis) þá er listi yfir hópa sem hægt er að skrifast á við, hafa tölvusamskipti, leika inn og útflutning, deila menningarviðburðum, halda landsmót  o. s.frv.Þeir skólar sem nota landnámsaðferðina eru beðnir að að senda okkur tölvupóst landnam@centrum.is til að hægt sé að setja þjóðir þeirra á skrá.

Litið fram á veginn:
Bókin Nýtt land - Ný þjóð kemur út í enskri þýðingu, verður gefin út í Washington og dreift þaðan. Vefurinn verður einnig þýddur á ensku og gefinn út á geisladiskum. Vonandi á einhveju Norðurlandamálanna líka.

Fyrir utan að breiða út aðferðina þá á vefurinn að þjóna þeim tilgangi að auðvelda kennurum að starfa eftir henni og vera upplýsinga og samskiptamiðstöð þeirra. Möguleikar til útvíkkunar á aðferðinni eru u.þ.b. óendanlegir og ef kennarar miðla þeim hugmyndum sem þeir fá með því að senda tölvupóst landnam@centrum.is eða skrifa í gestabókina þá stækkar og víkkar hugmyndabankinn jafnt og þétt.

 

 

Auðvelt á að vera að laga aðferðina að öllum aldursflokkum, þar er enginn eðlismunur aðeins áherslurnar aðrar.

 

Hugsanleg verkefnaröð

Sólkerfið
Jörðin
Evrópa
Norðurlönd
Ísland
Landkönnuðir
Eldgos
Landslag
Gróðurfar
Jarðhiti
Veðurfar
Undirbúningur landnáms
Sjóferðin
Landtakan
Húsaskjól
Landbúnaður
Sjósókn
Iðnaður
Verslun
Atvinna
Skóli
Trú
Skemmtun
Vegagerð
Heilsugæsla
Innflutningur
Útflutningur
Stjórnmál
Kosningar
Dómsmál
Orka
Skattar
Lántökur